154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

144. mál
[12:47]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Auk mín á þessari þingsályktunatillögu eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Tómas A. Tómasson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fullgilding bókunarinnar skal fara fram eigi síðar en við árslok 2024. Ríkisstjórnin skal stefna að því að lögfesta bókunina og samninginn um réttindi fatlaðs fólks samtímis.“

Tillaga þessi var áður lögð fram á 152. og 153. löggjafarþingi, 49. mál, og er nú lögð fram efnislega óbreytt. Alls bárust sjö umsagnir um málið á 153. löggjafarþingi, frá m.a. Öryrkjabandalagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og NPA-miðstöðinni. Umsagnaraðilar lýstu allir yfir stuðningi við málið.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Íslensk stjórnvöld undirrituðu hann 30. mars 2007 ásamt valfrjálsri bókun við samninginn. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, ásamt því að efla eðlislæga mannlega reisn þess og vinna að virðingu fyrir henni. Samningurinn felur í sér bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og að fötluðu fólki sé tryggð jöfn og árangursrík réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.

Alþingi samþykkti 11. júní 2012 þingsályktun nr. 43/140, um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Samkvæmt lið F.1 í III. kafla ályktunarinnar átti að leggja fram frumvarp til fullgildingar samningsins eigi síðar en á vorþingi 2013. Með þingsályktun nr. 61/145, sem var samþykkt 20. september 2016, var ríkisstjórninni veitt heimild til að fullgilda samninginn, sem var gert 23. september 2016. Með þingsályktun nr. 33/149, sem var samþykkt 3. júní 2019, var ríkisstjórninni falið að undirbúa lögfestingu samningsins og leggja fram frumvarp sem fæli í sér lögfestingu hans og aðlögun íslenskra laga að honum eigi síðar en 13. desember 2020. Það hefur ekki verið gert þrátt fyrir að slík fyrirætlan komi fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Valfrjáls bókun um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa einstaklinga vegna brota á samningnum var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006, um leið og samningurinn sjálfur. Íslensk stjórnvöld undirrituðu bókunina 30. mars 2007 ásamt samningnum. Þegar tillaga sú til þingsályktunar er varð að þingsályktun nr. 61/145 var til meðferðar á Alþingi var samþykkt breytingartillaga við hana þess efnis að auk samningsins sjálfs skyldi jafnframt fullgilda valfrjálsu bókunina fyrir árslok 2017. Með þeirri breytingu var þingsályktunartillagan samþykkt einróma, en þrátt fyrir það hefur bókunin ekki enn verið fullgilt af hálfu Íslands.

Ljóst er að á undanförnum árum hafa réttindi fatlaðs fólks fengið aukið vægi, ekki aðeins hér á landi heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi. Til vitnis um það hafa 184 ríki nú þegar fullgilt samninginn um réttindi fatlaðs fólks og af þeim hafa 100 ríki fullgilt valfrjálsu bókunina. Í tengslum við úttektir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi hafa íslensk stjórnvöld ítrekað verið hvött af öðrum ríkjum til að fullgilda valfrjálsu bókunina, nú síðast við þriðju allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála 25. janúar 2022. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við því hafa hingað til verið á þá leið að segja að fullgilding hennar sé til skoðunar, án þess að endanleg eða afgerandi afstaða hafi verið tekin.

Með fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði stuðlað að aukinni vernd þeirra réttinda sem koma fram í samningnum. Yrði þannig komið á fót sambærilegri kæruleið við þá sem lengi hefur verið til staðar vegna þeirra réttinda sem varin eru í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og við þá sem var samþykkt að koma á fót með fullgildingu þriðju valfrjálsu bókunarinnar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins samkvæmt þingsályktun nr. 28/151. Þar með yrði nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gert kleift að taka við erindum frá einstaklingum og hópum einstaklinga á Íslandi. Með því að stíga þetta skref yrði vernd þessara mikilvægu réttinda aukin og er því lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda valfrjálsu bókunina og hefja undirbúning að lögfestingu hennar.

Horfum á það að ég skuli þurfa að vera hér núna að flytja þessa þingsályktunartillögu um lögfestingu valfrjálsu bókunarinnar en á sama tíma, réttara sagt hérna í vikunni, vorum við að samþykkja framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027. Inni í þeirri framkvæmdaáætlun voru kaflar sem gera það að verkum að jafnvel sumt átti ekki að koma til framkvæmda fyrr en 2028 og lengst var hægt að draga það alveg til 2038, sem sýnir hvernig ríkisstjórnin dregur lappirnar í málefnum fatlaðs fólks. Í þessari framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027 sem félags- og vinnumarkaðsráðherra lagði fram og var samþykkt í þinginu með öllum greiddum atkvæðum nema Flokks fólksins, vegna þess að við vorum ekki sátt við þá framkvæmdaáætlun, hún var ekki gerð á löglegan hátt, þá segir orðrétt um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks — og við verðum að gera okkur grein fyrir því að við í Flokki fólksins erum með inni á þingi og búin að vera með í sex eða sjö ár frumvarp um að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks sem ekki hefur verið gert:

„SRFF kveður á um almennar skuldbindingar sem aðildarríki samþykkja til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk. Meðal annars skuldbinda aðildarríki sig til að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningnum.

Fullgilding SRFF árið 2016 var mikilvægur áfangi“ — 2016, spáið í það, þá var hann fullgiltur, það eru orðin átta ár — „þar sem íslensk stjórnvöld urðu við það skuldbundin til að tryggja fötluðu fólki öll þau lágmarksréttindi sem samningurinn kveður á um, sem og að gera þær breytingar á íslenskri löggjöf, reglum, stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu sem nauðsynlegar eru til að tryggja að ákvæði samningsins verði uppfyllt. Frá því að samningurinn var fullgiltur hafa verið gerðar ýmsar breytingar á íslenskum lögum og lagaframkvæmd til samræmis við samninginn. Hins vegar hefur samningurinn ekki verið lögfestur og hefur hann því ekki bein réttaráhrif hér á landi.“

Þess vegna vilja þeir ekki samþykkja hann, hvorki valfrjálsu bókunina né samninginn vegna þess að ef hann verður lögfestur hefur hann algjör og fullkomin réttaráhrif hérna í málefnum fatlaðs fólks og þá er hægt að verja sig, fatlað fólk getur varið sig.

„Árið 2019 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sem fól í sér að hefja ætti undirbúning lögfestingar SRFF og að frumvarp þess efnis yrði lagt fram á Alþingi í desember 2020.“

Hérna sjáum við svart á hvítu hvernig ríkisstjórnin dregur lappirnar og ætlar sér ekki að gera þetta. Þeir þykjast vera að gera þessa hluti. Árið 2019 var samþykkt einróma að það yrði búið að lögfesta þetta 2020 en við erum komin í 2024 og enn þá hefur hann ekki verið lögfestur og enn þá er ekki neitt í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks um að það eigi að lögfesta þetta, hvorki samninginn né valfrjálsu bókunina. Við eigum að spyrja okkur hvers vegna ekki.

„Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er kveðið á um að lögfesta skuli samninginn.“

Það er kveðið á um það en samt áttu þeir að vera búnir að þessu 2019 og 2020, en nei, þeir ætla bara að gera þetta einhvern tímann. Samt var Alþingi búið að samþykkja að gera þetta og í síðasta lagi í desember 2020.

„Verkefnið felst í að semja lagafrumvarp um lögfestingu SRFF, kortleggja aðrar nauðsynlegar lagabreytingar samhliða lögfestingu SRFF og meta áhrif þeirra lagabreytinga sem um ræðir.“

Um fullgildingu valfrjálsu bókunarinnar segir í framkvæmdaáætluninni:

„Á sama tíma og SRFF var samþykktur árið 2006 var samþykkt valfrjáls bókun við samninginn sem felur í sér kvörtunarleið fyrir einstaklinga og hópa einstaklinga vegna brota á samningnum. Ísland undirritaði bókunina árið 2007 og þegar samningurinn var fullgiltur hér á landi árið 2016 var kveðið á um að fullgilda skyldi viðaukann fyrir árslok 2017. Þar sem það hafði ekki gengið eftir samþykkti Ísland tilmæli þess efnis að fullgilda bókunina í síðustu allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála (UPR) hér á landi árið 2022.

Megininntak bókunarinnar er á þá leið að einstaklingar eða hópar einstaklinga hér á landi geti beint kvörtun til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nefndin getur tekið kvörtun til meðferðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kannað er hvort mál varði réttindi sem kveðið er á um í SRFF og hvort þegar hafi verið reynt að nýta þau úrræði sem í boði eru samkvæmt íslenskum lögum til að ná fram þeim réttindum, t.d. með því að fara með mál fyrir dómstóla. Eftir að mál hefur verið tekið til umfjöllunar gefur nefndin út óbindandi álit, en veita þarf upplýsingar um hvernig aðildarríkið hyggst bregðast við álitinu.

Talið er mikilvægt að fatlað fólk geti leitað til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þegar það telur réttindi sín ekki virt. Óbindandi álit frá nefndinni er þannig mikilvægur liður í að styrkja mannréttindi og leiðbeina um leiðir til úrbóta.“

Þetta er það sem þau segja. En þessi framkvæmdaáætlun sem við samþykktum sýnir okkur bara svart á hvítu að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að gera nokkurn skapaðan hlut í þessu máli. Við erum með fatlað fólk sem er að berjast og hefur barist áratugum saman fyrir réttindum sínum. Fjárhagslega ofbeldið sem er beitt gagnvart þessu fólki er alveg með ólíkindum og ein birtingarmynd þess er núna í endurskoðun almannatrygginga vegna málefna öryrkja. Meginstefið er yfirleitt alltaf að skilja einhverja öryrkja eða eitthvert fatlað fólk útundan og beita það keðjuverkandi fjárhagslegu ofbeldi algerlega án þess að hika. Þetta áframhaldandi og ítrekaða fjárhagslega ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og einelti hreinlega á margan hátt sýnir svart á hvítu hvað ríkisstjórnin er að hugsa og hvers vegna þau vilja ekki sjá það, ekki í eina sekúndu, að lögfesta samninginn. Það stendur hvergi hvenær á að lögfesta samninginn í framkvæmdaáætluninni. Það stendur hvergi hvenær á að lögfesta valfrjálsu bókunina. Þau hefðu getað gert þetta mjög einfaldlega. Ég er að mæla hérna fyrir því að valfrjálsa bókunin verði lögfest. Við erum búin að mæla fyrir því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna. Það er búið að samþykkja þingsályktun um þetta og þau áttu að vera búin að þessu 2020. Það var samþykkt einróma hér á Alþingi. Þetta sýnir að ríkisstjórninni er algerlega og gjörsamlega sama.

Við vitum hvernig staðan er hjá fötluðum börnum, fötluðum konum. Við vitum að það er verið að brjóta mannréttindi á þessu fólki ítrekað. Ríkisstjórnin segir að þau séu búin að fullgilda samninginn og þá geti fólk leitað réttar síns. Það er ekki rétt vegna þess að fólk getur það ekki, stjórnsýslan og dómstólar taka ekki mark á fullgildingu, þeir taka mark á lögfestingu. Þess vegna ber þessari ríkisstjórn að hysja upp um sig buxurnar og reyna einu sinni að sýna það virkilega í verki að þau séu að gera eitthvað í málefnum fatlaðs fólks, að þau ætli sér að standa með fötluðu fólki. Þar af leiðandi er bara eitt sem þau geta gert til að sanna það og það er einfalt; taka mál Flokks fólksins um löggildingu samningsins, einn tveir og þrír, taka mál Flokks fólksins um lögfestingu valfrjálsu bókunarinnar og klára þau. En vilja þau það? Nei. Þess vegna þarf þessi ríkisstjórn að fara frá, það komi ný ríkisstjórn sem mun sjá til þess á stundinni að klára þetta mál.